Hótel Egilsen Stykkishólmi

Stykkishólmur er eitt fegursta bæjarstæði á Íslandi. Þangað er ætíð ljúft og notalegt að koma til að njóta fegurðar og kyrrðar. Staður sem ferðamenn innlendir sem erlendir ættu að sækja heim og það jafnvel aftur og aftur. Því alltaf er hægt að hafa eitthvað nýtt fyrir stafni og aldrei fær maður nóg. Þú finnur fljótt að þar býr gott fólk, friðsamt, glatt og gestrisið. 

Á besta stað í hjarta bæjarins gefur að líta gamalt rauðmálað vinalegt hús, óvenju reisulegt, vandað og vel við haldið enda ný uppgert.

Þar ræður ríkjum jarðneskur engill, boðberi kærleikans sem hefur ásett sér að sjá fólk með hjartanu, tekur öllum opnum örmum, dæmir ekki og fer ekki í manngreiningarálit.

Þar upplifir maður frið sem er engu líkur. Frið sem sprottinn er af raunverulegri umhyggju sem á ættir að rekja til kærleikans æðsta og messta. Frið sem hefur þau áhrif að maður endurnærist og fyllist aðdáun og þakklæti fyrir fegurð lífsins.

Er þá sama hvort um er að ræða óvenju ferskan og ljúffengan morgunverðinn, herbergi eða rúm, sængur eða sápur, sturtur eða geðugt starfsfólk sem hefur þægilegt viðmót og sanna þjónustulund. Manneskjur sem leggja sig fram af alúð, þannig að þig langar að koma aftur og aftur. Því að á Hótel Egilsen er hreint út sagt dásamlegt að dvelja.

Allt þetta og svo miklu meira til, skilur eftir sig notalegar minningar sem erfitt er að koma í orð en ég hvet fólk til að upplifa.

Takk fyrir mig!

Sigurbjörn Þorkelsson
rithöfundur
26. ágúst 2013