Skissað við Breiðafjörð

Skissuvinna skipar sérstakan sess hjá mér sem myndlistamanni. Þetta er spontant athöfn sem er oft undanfari að öðru verkeferli en getur engu síður staðið sjálfstætt. Margir myndlistamenn nota skissuna til þess að undirbúa verk sín en ég geri það sjaldnast. Ég hef venjulega verk mín mjög spontant sem ekki er ólíkt skissunni; legg myndina upp abstrakt, annað hvort í lit eða formi, og vinn síðan verkið út frá því á fíguratívar slóðir.
Ég hef gert talsvert af því að vatnslita úti í náttúrunni; til fjalla, úti á söndum, inn til dala, upp á heiðum og jafnvel kropið við gjósandi eldfjall til þess að fanga núið. Það er oft athöfnin sjálf sem heillar meira en afraksturinn. Það að gera sig kláran í svona ferð með liti, pappír, t.d. 500 gramma handgerðan vatnslitapappír strektan upp á plötu, velja sér vettvang, huga að veðri og leggja í hann, allt þetta er eins og þegar veiðimaður heldur til veiða.

Reyndar hófst þessi iðkun mín að vatnslita í náttúrunni þegar ég hafði með liti og pappír fyrir allmörgum árum norður í Vatnsdalsá og ég var að hvíla stöng á móti KK (eldri) og notaði hvíldina í að mála kallinn þar sem hann stóð í ánni hnarreistur eins og við helgiathöfn með flugustöngina og flautaði lagstúf. Ég kraup við bakkann, mundaði pensilinn og dróg upp stemninguna eldsnöggt í nokkrum dráttum og notaði vatnið úr ánni með litnum. Myndinn steinlá á bakkanum. Þegar KK landaði sínum 8 punda, að mig minnir, lá mynd af honum við hlið mér og vorum við jafn montnir af aflanum.
Þetta gaf tóninn. Smám saman hef ég hætt að veiða (þar kemur inn í iðkun mín á buddisma) en tekið meira upp á því að vatnslita úti í nátturunni og nota til þess það vatn sem er fáanlegt á staðnum hverju sinni en það eitt og sér gefur verkinu einstaka magíu.

Eitt sinn var ég staddur í Tibet við vatnið Mansorova sem er eitt helgasta náttúruvætti sem fyrirfinnst á jörðinn. Það stendur í rúmlega 4.000 m. hæð og er hæsta ferskvatnsstöðuvatn sem finnst og er á vestur-hásléttu Tibets. Sá átrúnaður er á vatninu að hver sá sem syndir í því eða drekkur af því mun öðlast hið besta karma í næstu endurfæðingum langt fram á tímabrautina. Það var einmitt það sem við félagarnir gerðum. En ég bætti um betur og málaði mynd af þessu helga vatni, umhverfi þess og notaði vatnið sjálft við athöfnina. Það er þetta sem er svo heillandi við svona vinnu sem unnin er á staðnum, sama hvaða miðil menn nota, það er eitthvað meira að gerast en maður sér og góð skissa getur fangað þetta andrúmsloft þó í fáum dráttum sé. Þetta er eins og að vera á veiðum með einhleypu þar sem eitt skot verður að duga.

Þannig var teiknarinn oft með í för fyrir daga ljósmyndana og þótti mér fátt eins skemmtilegt sem unglingur eins og að fletta og lesa bækur er sögðu frá leiðöngrum landkönnuða inn í myrkviði og fjalllendi ókunnugra svæða þar sem leyndust týndar grafir og grónar rústir. Fylgdu oft teikningar frá vettvangi atburðana með í bókunum svo ég tókst á flug á töfrateppi ímyndunaraflsins og þaut út í buskann þar sem hluti af mér hefur orðið eftir æ síðan.

Þegar ég var beðin um að gera þetta verkefni, að fara milli eyja í Breiðafirði og skissa markverða staði og yfirgefin mannvirki, tengdi ég þetta strax ævintýri landkönnunar og sló glaður til. Við fórum saman Daníel ljósmyndari og áhöfnin á Kríunni, en svo hét báturinn. Þeir Geir, Soffi og við héldum út á Breiðafjörðinn snemma einn sumardagsmorguninn í brennandi sól og spegilsléttum sjó. Báturinn var harðbotna slöngubátur framleiddur í Hollandi, er með 600 hestafla vél og losaði vel 40 mílur, og fékk maður að finna fyrir þessu afli þegar út á flóann var komið. Þegar við vorum á stefnunni að Hvítarbjarnarey, á keyrslu eins og verið væri keyra í formúlunni, hvarflaði að mér að djöfull verð ég að vera snöggur að skissa ef þeir ætla að keyra svona en aðvitað voru tekinn skissustop við þær eyjar sem við höfðum ákveðið að heimsækja. Breiðafjarðareyjar eru svo margar og liggja vítt og breitt um flóann svo það er ansi mikið verk að heimsækja þær, þó ekki væri nema þessa grúpu sem við stefndum á.

Ég hafði fyrir einhverjum árum farið um nærliggjandi eyjar við Stykkishólm á kajak ásamt dóttur minni Ásdísi og fleira fólki og fannst mikið til fegurð eyjana koma, bæði form og litir, stuðlabergið, gróandinn, dýralífið og kraumið í röstunum sem liggja við eyjarenda á flóði og fjöru. Fallhæðin þarna í flóanum er um 6 metrar svo kraftarnir eru miklir sem þarna eru á ferðinni.

Þetta var einstakt ævintýri þessi dagur á Kríunni, við heimsóttum fjölda eyja og kom á óvart hversu mikil byggð hefur verið í þessum eyjum. Ekki að undra þó Breiðafjörðurinn hafi oft verið kallaður mesta matarkista landsins fyrr á öldum. Stuðlabergsmusterið sem umliggur Hrappsey kemur á móti manni eins og rústir frá óræðum tíma og felur á bak við veggi sína goðsagnir og ósagðar sögur sem springa út í berginu þar sem stuðlarnir breiða úr sér eins og blævængur út í fjörðinn. Gjá gengur inn í eyjuna þvert í gegnum stuðlabergsskrúðið, dimm og þröng en þar var fólk tekið af lífi ef svo bar undir með því að hengja það á raft sem lá yfir gjánna en þetta á að hafa verið stundað á söguöld.
Ýmis eru undrin sem bera við augu. Í Hvítarbjarnarey liggur hnöttótt móbergsbjarg, skorðað ofan í klofning sem klýfur eyjuna í sundur. Móbergið sem er hvergi er að finna annarstaðar í eyjunni er eins og sending frá öðru stjörnukerfi. Sagan segir að tröllkona nokkur sem hafðist við upp í Drápuhlíðarfjalli, hafi kastað þessu bjargi að eyjunni svo hún klofnaði.

Við keyrðum inn í straumana en það er það kallað þegar sjórinn fellur í gegnum þröngan flöskuháls milli Hvammsfjarðar og flóans sjálfs. Þá myndst þar fallsjór sem er eins og Þjórsá, það kraumar og fossast og sjórinn bólgnar upp eins og stórfljót með iðum og sogkötlum svo maður undrast að hægt sé að sigla í gegnum þessar rastir.
Við vorum á sjó frá því um morgun og fram á kvöld og fékk ég að sjá meira af þessu náttúruundri sem Breiðafjörðurinn er en mig hafði órað að ég gæti skoðað á heilli ævi.
Leiðangursmenn voru sáttir þegar í land var komið með ljósmyndir og ógleymanlega reynslu í blóðinu og skissur mínar hanga nú á veggjum Hótel Egilsen í Stykkishólmi.

Á heimleið ók ég yfir skarðið en sólin var að setjast yfir flóann svo allur vesturhimininn logaði. Barðarströndin var hjúpuð djúpbláu biki sem bráðnaði út í glóandann sem lá yfir haffletinum,. Eyjarnar voru sem stjörnufloti sem var um það bil að hefja sig til flugs, en undir himinnhvolfinu svifu hæglætislega skýjateppi eins og blóðrauð fórnarklæði í þeirri athöfn þegar dagur sofnar og nóttin vakir. Uppi á skarðinu var Berserkjahraunið í bjarma en eldborgirnar purpurarauðar með dimbláa skugga. Fjöllinn sjálf í ísköldum feldi sem skreyttur var með fölbleikri fönn. Úr vestri kom skýjafljót sem valt áfram eftir fjallgarðinum og steyptist í fossum niður eftir hlíðum fjallanna ofan í hraunið þar sem það leystist upp sem stjörnuregn og hvarf.

Framundan lá vegurinn til suðurs inn í fátóna nóttina.

Þýli Kjós. 1 júlí 2012
Ást og friður Tolli.